Um helgun lands, vætti og eign
Héraðsþing hófst á almennri umræðu um hvort ræða þyrfti sérstaka skilgreiningu á hugtakinu eign. Minnst er á eign og eignarrétt í Stjórnarskrá Þjóðveldis en ekki skilgreint sérstaklega hvað eign er. Gefið er óbeint í skyn í stjórnarskrá að skilgreina mætti hugakið betur í lagalegu samhengi og þá með tilliti til vægis á milli hagsmuna samfélags annars vegar og einstaklings hins vegar.
Framangreind atriði komu til tals út frá hugmyndinni um helgun lands sem var veigamikill þáttur í heimsmynd þeirra sem fyrst námu land á Íslandi þ.e. í upphafi landnáms. Í þann tíð slógu fyrstu landnámsmenn eign á tiltekin landsvæði og gerðust þannig ýmist goðar eða höfðingjar héraða. Innan þessara eigna gátu síðan menn og konur helgað sér land með ýmsum hætti.
Talað er um að karlar hafi markað sér landhelgi með bálköstum en konur með því að leiða kvígu um landið. Ef nánar er rýnt má sjá að vel var hugsanlegt að konur næðu þannig, með því að temja kvíguna með næmi sínu, að helga sér stærra landsvæði en karlar sem þyrftu afturámóti að höggva sér við og þurrka og síðan bera með sér og loks tendra eld. Áður hefur komið fram í málflutningi t.d. í Endurreist Þjóðveldi 2013 að vægi kvenna hafi verið meira í fyrnd en síðar var viðurkennt en þá með tilliti til hins náttúrulega samræmis (Natural Harmony).
Fram kom í þessari umræðu sú hugsun að mannvera sem lifir, sé sál er birtist í holdtekju og því sé ákveðin helgi yfir þeirri veru og að þá helgi megi auka eða minnka t.d. með iðkun gilda. Þetta á sér rætur í þeirri frumspeki (Metaphysics) að sál sé andleg verund sem tekur sér form í efni. Þetta mætti síðan víkka út með tilliti til lands, að mannvera sem helgi sér land grundvalli samlíf sitt með landi í helgi sem einnig styrkist eða veikist með iðkun gilda. Óbeint er hér gefið í skyn að landvættir gætu verið sál lands og að mannleg sál og sál lands þurfi að lifa saman í samræmi ef vel á að vera.
Framangreint mætti síðan tengja áfram í hugtakið Landvættur – eða eins konar sál eða frumkraftur sem styrkist eða veikist eftir samlífi mannveru eða hóps mannvera með því landi sem helgað er. Ætli sú mannvera eða hópur að ganga með vættum eða treysta á vernd vætta þurfi að virða eignarrétt lands yfir sjálfu sér og virða rétt vætta til helgunar lands.
Hér er vissulega dansað í samræðu á jaðri frumspeki (Metaphysics) annars vegar og dulspeki (Mysticism) hins vegar. Það er þó skilningur þeirra er hér koma saman að setja lög fyrir hóp fólks eða samfélag – hvað þá að skilgreina þjóð – að ekki sé hægt að setja lagareglur, dómsreglur eða móta skjalavald án þess að frumspekileg heimsmynd og hugrænt og tilfinningalegt siðferði sé lagt til grundvallar og rætt.
Þannig mætti ræða að helgun lands og holds renni sjálfkrafa til skilgreiningar á eign og eignarrétti. Ennfremur að frumspeki sé hugsun sem getur tekið sér form og að án virðingar fyrir þeim rótum sé erfitt að skilgreina hvað sé þjóð eða hver séu þau lög og siðferðissáttmáli sem renni stoðum undir þjóðríki. Svipað efni er gefið í skyn, bæði beint og óbeint, í formála Stjórnarskrár.
Þá kom fram sú spurning hvort land eigi sig sjálft og þá hvort helgun lands sé samningur við land. Í því tilliti var rætt um forn lög sem sett voru á Englandi um leið og hið nafntogaða Magna Carta var sett í lög jafnhliða hinu minna þekkta Rights of the Forest. Hið síðarnefnda tilgreindi að almenningur hefði ákveðin réttindi til að umgangast náttúruna án afskipta ríkisvalds og þar með viðurkennt að þjóðríki eigi tilveru sína við hlið hins náttúrulega en taki það ekki yfir.
Í víðu samhengi sjá glöggir að á djúpum og vítækum málum er drepið sem geta skipt miklu máli í lagalegu og réttarfarslegu tilliti fyrir ekki bara samfélag fólks heldur sambúð þess með hinu náttúrlega.
Tengt efni
Um Allsherjarþing
Nýlega setti Guðjón Hreinberg fram þá tillögu í myndskeiði á Youtube að ræða mætti á Héraðsþingum Þjóðveldis hvort tímabært væri að setja Allsherjarþingi (Alþingi) skýrari ramma og setja þinghelgi þess af sömu natni og héraðsþing. Þar sem borgarar Þjóðveldis hafa verið fáir frá endurreistu Þjóðveldi sumarið 2013 hafi ekki þótt ástæða til að setja þinghelgi Allsherjarþings sérstaklega heldur hafa ákvarðanir þess verið teknar með á Héraðsþingum.
Var óformlega samþykkt meðal borgara í aðdraganda héraðsþings að taka þetta mál fyrir og var það gert á þessu þingi en myndskeið Guðjóns má finna á slóðinni https://www.youtube.com/watch?v=WjMjr7KSgxo.
Rætt var um mikilvægi þess að gefa Allsherjarþingi – hér eftir nefnt Alþingi – það form og/eða formfestu sem það á skilið og þannig hefja þann farveg að sýna út á við þá virðingu sem fyrir því er borin. Rætt var mikilvægi yfirlýsingarinnar (Statement) eða ástandslýsingarinnar sem þetta gefur út á við en einnig mikilvægi þess að hefja slípun vægis þess gagnvart héraðsþingum eða marka skil þar á milli. Með öðrum orðum að ítreka hið forna vægi þess að setja þinghelgi eins og gert var hér áður fyrr.
Þá var rætt hvort ætti að halda sig við hina fornu hefð að þinghelgi væri sett á fimmtudegi við sumarsólstöður eins og gert var áður fyrr og þá sérstaklega rætt um hvaða skilning á að setja í þessa setningu t.d. hvort fimmtudagur væri ætíð á undan sumarsólstöðum eða hvort miðað væri við þá venju sem iðkuð hefur verið frá setningu Allsherjarþings sumarið 2013 þegar Þjóðveldi var endurreist.
Uppi er mismundandi skilningur á hvort sett var þinghelgi á fimmtudegi í tíundu viku sumars og þá hvort talin sé 1sta vika sumars í sömu eða næstu viku á eftir 1sta sumardegi. Þá er mismunandi túlkun á því hvort setja skuli þinghelgi á fimmtudegi fyrir sumarsólstöður eða eftir, miðað við hvort sólstöður beri upp á helgi eða virkum degi.
Í þessu samhengi var rifjað upp efni greinar um sama efni sem rituð var 23. júní síðastliðinn og birt sama dag á nyttland.is. Greinina má finna á slóðinni http://nyttland.is/?p=47.
Ákveðið var að miða við hina fornu hefð en fyrst skyldi afla viðurkenndra heimilda um hvernig finna megi réttan dag og birta með skýrslu þessa héraðsþings. Ákveða skyldi á héraðsþingum í janúar 2018 hvaða dag skyldi endanlega velja og út frá hvaða reiknireglu sá dagur sé fundinn.
Áréttað var á þingi að meðan Þjóðveldi er jafn fámennt og nú er að hægt sé að halda þingfundi Alþingis hvenær sem er svo fremi að nægilegur fjöldi borgara sé á þingi. Gengið er út frá þeirri reglu að allir borgarar Þjóðveldis eru sjálfkrafa héraðsþingmenn og þar sem héraðsþing getur tilgreint alþingismann geti héraðsþing haldið allsherjarþing á meðan einungis eitt gilt hérað er í landinu.
Þá var rætt um hvernig skilja beri greinar 17. til og með 20. í Stjórnarskrá um dómsvald Þjóðveldis. Ákveðið var að fela Alþingi það hlutverk að hefja útfærslu og framkvæmd til bráðabirgða á dómsvaldi þar til Þjóðveldi verði nægilega fjölmennt til að geta reist viðeigandi stofnanir á grundvelli framangreindra ákvæða.
Rætt var um á hverju dómar byggjast; Þarf að dæma eftir lögum eða má dæma eftir allsherjarkosningu (dómþings) eftir allsherjarsiðgæði? Hér sést betur mikilvægi þess sem rætt var í upphafi þings, þ.e. hvert sé frumspekilegt siðferði sem lagt er til grundvallar lögum og dómum. Eru lög lifandi fyrirbæri (entity) eða ritað orð, en á hverju skal hið ritaða orð byggjast?
Niðurstaðan sem samþykkt var einróma, en orðalag var vandlega yfirfarið á þingi, er svohljóðandi: „Allsherjarþingi er falið að útfæra dómsvald og/eða dóma í samræmi við ákvæði stjórnarskrár eftir því sem allsherjarsátt ríkir um. Allsherjarþing er áminnt um að dómar hafi mikilvægt fordæmisgildi. Lög byggjast ætíð á frumspekilegum skilningi þeirrar þjóðar sem býr að ríkinu og endurspegla því allserjarsiðgæði.“
Silfurdalur
Innt var eftir reiknilíkani til að lögfesta gildi Silfurdals – sem þegar hefur verið samþykktur sem gjaldmiðill Þjóðveldis – og voru sett tímamörk til næsta þings sem Lögsögumaður tók að sér að fylgt væri eftir. Í þessu efni var stuttlega drepið á skyldu efni sem rætt hefur verið áður s.s. skattheimta Þjóðveldis og samningar þess við starfsfólk eða embættisfólk ríkisins.
Ítarefni
Af Þinghelgi Allsherjarþings og valdi þess til dóma
„Samkvæmt Íslendingabók Ara fróða var ákveðið á Alþingi árið áður en kristni var lögtekin, „að menn skyldi svo koma til alþingis, er tíu vikur væri af sumri, en þangað til komu viku fyrr.“ Þetta kemur heim við lögbókina Grágás, sem var auðvitað skráð eftir að þessi breyting var gerð. Í Þingskapaþætti hennar segir: „Goðar allir skulu koma til þings fimmta dag viku er tíu vikur eru af sumri, áður sól gangi af Þingvelli …“ Fræðimenn hafa yfirleitt gengið út frá því að þá um kvöldið hafi þingið verið helgað og þar með formlega sett; það gera til dæmis Einar Arnórsson í Réttarsögu Alþingis og Jón Jóhannesson í Íslendinga sögu sinni. En daginn eftir var gengið til Lögbergs, þar sem lögsögumaður sagði upp þingsköp og önnur þingstörf hófust. Það kæmi því til greina að líta á föstudaginn sem upphafsdag þingsins, en hér á eftir geng ég samt út frá því að þingið teljist hefjast strax á fimmtudaginn.
Sumar hefst á fimmtudegi, svo að fimmti dagur viku, er tíu vikur eru af sumri, er fimmtudagurinn í elleftu viku sumars, fimmtudagurinn viku fyrr í upphafi tíundu viku.“ ~ Gunnar Karlsson, prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ. (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=390)
„Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930. Þinghaldsstaðurinn hét Lögberg. Þar komu höfðingjar saman í júní ár hvert til að setja lög og kveða upp dóma. Flestum öðrum var einnig frjálst að fylgjast með þinghaldinu, eins og tíðkast á Alþingi enn í dag. Æðsti maður þingsins var lögsögumaðurinn sem var gert að leggja á minnið lög landsins og þylja upp fyrir aðra sem þingið sátu; einn þriðja laganna á ári hverju. Fram að árinu 1271 var svo þinginu slitið eftir tvær vikur á svokölluðum þinglausnardegi, en eftir það var þinghald stytt nokkuð.“ ~Páll Emil Emilsson (Háskóla unga fólksins) og Heiða María Sigurðardóttir, doktor í taugavísindum. (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5268).
Sjá nánar í kynningarbæklingi Alþingis Lýðveldisins frá 1944: „Í upphafi var Alþingi allsherjarþing þar sem æðstu höfðingjar komu saman til löggjafarstarfa og til að kveða upp dóma. Auk þess var öllum frjálsum mönnum og ósekum heimilt að koma á þingið, og þangað sóttu auk goða bændur, málsaðilar, kaupmenn, iðnaðarmenn, sagnaþulir og ferðalangar.“ Ennfremur: „Lögrétta var löggjafarstofnun Alþingis. Hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Miðpallsmenn einir höfðu atkvæðisrétt og réð meiri hlutinn úrslitum mála. Alþingi hið forna hafði einnig dómsvald og var ýmist fyrsta, annað eða þriðja dómstig.“ (http://www.althingi.is/pdf/isl.pdf)
Sumardagurinn fyrsti
„Í stærstu dráttum var árinu skipt í tvö nær jafnlöng misseri: Vetur og sumar. Vetrarmisserið byrjaði alltaf á laugardegi og sumarmisserið á fimmtudegi. Fram til ársins 1700 var það fimmtudagurinn á bilinu 9.-15. apríl en eftir 1700 á bilinu 19.- 25. apríl.“ ~Árni Björnsson, Þjóðháttafræðingur. (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5831)
„Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25.“ ~Trausti Jónsson, Veðurfræðingur. (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65157)
„Sumardagurinn fyrsti er fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl og getur því borið upp á dagana 19.-25. apríl. Þegar aðfarardagur ársins er þekktur, er hægt að finna sumardaginn fyrsta á þann hátt að byrja að telja á þeim fingurstað sem svarar til aðfarardagsins og telja þar fyrstu hugsanlegu dagsetninguna (19. apríl). Síðan er talið venjulegan hring (öfugan hring) þar til komið er á fingurtopp. Sú dagsetning sem þar lendir gefur þá sumardaginn fyrsta.“ ~Almanak Hásóla Íslands. (http://www.almanak.hi.is/f2.html)
Greinar 17 til 20 í Stjórnarskrá Þjóðveldis
17. Dómarar, Fógetar (Sýslumenn) og Lögreglustjórar héraða eru kosnir almennum kosningum og sitja til þriggja ára í senn. a) Ef dómari dæmir gegn stjórnarskrá telst það glæpur gegn þjóð og/eða réttarmorð?
18. Eigi má dæma íbúa Þjóðveldis til refsingar nema samkvæmt lögum og að undangenginni sönnunarbyrði fyrir dómi. Þegar fullnaðardómi er náð má eigi þyngja refsingu.
19. Um dómsstig og dómstóla. a) Landsdómur er jafngildi hæstaréttar og sker úr um allsherjarlög og áfrýjaða dóma til endurmats. b) Hvert hérað hefur héraðsdómstól sem dæmir samkvæmt lögum héraðs og í mörgum tilfellum allsherjarlögum. c) Dómarar Þjóðveldis séu kosnir af almenningi og sitja hámark sex ár í embætti. Sé skortur á dómurum getur Alþingi skorað á hæft fólk til framboðs. d) Allir dómar séu kveðnir fjölskipuðum dómi þriggja til sjö dómenda og sé dómur gildur sé hann einhuga. e) Komi síðar í ljós að dómur sé réttarmorð skulu dæmendur sjálfkrafa útlægir í tólf ár. Réttarmorð telst þegar hluti dóms eða allur var að ósekju. f) Alþingi skilgreinir lög um framkvæmd dóma og almenn hegningarákvæði gegn lögbrotum.
20. Útlægur telst sá sem missir lagalegan rétt innan Þjóðveldis að öllu nema ríkisfangi sem er ósviptanlegt. a) Landsréttur kveður upp útlegðardóma. Alþingi skilgreinir hæli sem veita má útlægum sem ekki geta eða vilja fullnusta útlegð utan Þjóðveldis.