Sumarsólstöður 2017 og gjaldmiðill Þjóðveldis

Eins og fram kemur í greininni Héraðsþing í janúar 2017 hefur talsvert verið rætt innan Þjóðveldis um upptöku gjaldmiðils fyrir ríkið. Á héraðsþingi í apríl 2017 var mest rætt um þessi mál ásamt utanríkismálum.

Ekki þótti ástæða til að færa inn sérstaka færslu á nyttland.is eftir umræður apríl þings þar eð umræðuefnin voru í aðalatriðum þau sömu og rædd voru á janúar þingi.

Rætt var hvað gert hefði verið í utanríkismálum og samþykkt að halda áfram á sömu braut og fyrst var mörkuð á október þingi 2016. Kosið var að Silfurdalur yrði gjaldmiðill ríkisins og samþykkt að halda áfram frekari þróun á reiknilíkönum og tillögum að hvernig það yrði útfært.

Nú er mánuður í héraðsþing júlí mánaðar og daginn sem þessi pistill er ritaður stendur á Þjóðveldisdag 2017, eða fimmtudag við sumarsólstöður. Svo skemmtilega vill til að einmitt í dag hafa verið margar fréttir í Lýðveldinu af hugmyndum fjármálaráðherra þess að leggja niður tvo af seðlum lýðveldis-krónunnar.

Ekki var talin sérstök ástæða til að færa inn fréttir af apríl þingi hér á vefnum þ.e. engin ný mál voru tekin til umræðu sem þótti ástæða til að bóka. Þó kosið hafi verið um Silfurdalinn þá hafði sú hugmynd verið rædd á janúar þingi – ásamt fleiri skyldum umræðum í grasrót Þjóðveldis – og þó opinber ákvörðun hafi verið tekin þótti kosningin ekki sérstaklega tilkynningaskyld á Vefnum þ.e. hún var aðeins lítið skref í lengri þróun.

Deila má um hvort rétt hefði verið að rita frétt í apríl síðastliðnum. Þar eð Þjóðveldi er fámennt í dag þá fylgjast allir borgarar þess vel með og Facebook síða þjóðveldisfólks er virk, þó sú síða sé ekki opinber síða ríkisins. Hún er öllum opin og umræður þar alls ekki ritskoðaðar.

Kosningin sjálf hefur lagalegt gildi á þingum og innan ríkisins og engin lög eru hjá okkur um að tilkynna þurfi þau á vefnum eða birta undirritað eða stimplað skjal. Hugsanlega þyrfti að ræða þennan flöt á þingum. Það er vel hugsanlegt að sumum þingmönnum – en allir borgarar Þjóðveldis eru sjálfkrafa héraðsþingmenn – þyki óþarfi að fara í þær skjalavalds-öfgar sem tíðkast hjá öðrum ríkjum.

Augljóst er að þessi umræða mun verða tekin upp og að hún mun ekki verða útkljáð sumarið 2017.

Vænta má að stærstu umræðuefnin, svo sem verið hefur á síðustu þrem þingum, verði utanríkis- og gjaldmiðlamálefni. Þó er aldrei að vita hvað kemur upp, enda umræður oft skemmtilegar og kraftlægar (Dynamic). Nokkuð er að frétta af þessum málum og tilkynna þarf þingi hvað er að frétta og ræða næstu skref.

Í sumar voru nokkrar umræður í grasrótinni um Þjóðveldisdaginn. Mismunandi er meðal Íslenskrar þjóðar hvernig fólk skilur þessa dagsetningu. Mikið efni er til í bókmenntum þjóðarinnar og umtalsvert og gott efni til á Vefnum til að mynda er þessu efni gerð ágæt skil á Vísindavefnum. Það hefur alltaf verið nóg til af grúskurum í menningu okkar og mikil gróska sem hægt er að gramsa í.

Yfirleitt er miðað við að Þjóðveldisdagurinn – sem er jafnframt sá dagur sem þinghelgi var sett á Allsherjarþingi á Þingvöllum – sé fimmtudagur næst á eftir sumarsólstöðum og þá í elleftu viku sumars.

Margir vilja meina að réttur dagur sé fimmtudagurinn fyrir sumarsólstöður og þá í tíundu viku sumars. Hér má minna á að telja þarf vikurnar frá einhverri dagsetningu og sammælast um hver sú dagsetning sé. Yfirleitt er miðað við Sumardaginn fyrsta en er sú vika talin sem fyrsta vika eða er næsta vika á eftir sú fyrsta?

Yfirleitt er valin sú leið að telja fyrstu viku sem næstu viku á eftir sumardeginum fyrsta og að nota frásögur Ara Fróða til að ákvarða hvenær Þjóðveldisdagurinn sé. Ari var á þeirri skoðun að fram til trúskiptanna sumarið 1000 hafi það verið í tíundu viku en eftir trúskiptin hafi það verið í elleftu viku.

Hér má minna á að til eru fræðigreinar sem rökstyðja að trúskiptin hafi farið fram árið 999 og vilja sumir jafnvel fara ári aftar. Allar umræður og vangaveltur af þessu tagi eru áhugaverðar í menningarlegu og frumspekilegu tilliti.

Það hefur þó verið stefna Endurreists Þjóðveldis að halda sig við eftirfarandi. Því agi verður að vera.

Þjóðveldisdagurinn sé fimmtudagur við sumarsólstöður annaðhvort í tíundu eða elleftu viku eftir því á hvaða degi sólstöður koma upp. Þessi hefð hefur verið notuð frá því Þjóðveldi var endurreist sumarið 2013. Það sumar voru sólstöður á mánudegi og Þjóðveldis helgi var sett á fimmtudegi vikuna áður.

Í ár eru sólstöður á miðvikudegi og Þjóðveldisdagurinn fimmtudagurinn í sömu viku, sem er sami dagur og þessi grein er rituð. Líklega hefðum við haldið Þjóðveldisdaginn í síðustu viku ef sumarsólstöður hefðu fallið á þriðjudegi í þessari viku.

Rétt er að taka fram að fyrir rúmu ári síðan sendi greinarhöfundur erindi til Ásatrúarfélagsins með fyrirspurn um hvernig þeir reikna blót sín um þetta leiti, og var óskað eftir leiðsögn. Það virðist þó hefð þess ágæta fólks – miðað við fleiri tölvuskeyti sem undirritaður hefur sent þeim – að svara ekki tölvuskeytum. Hugsanlega er einhver vættur sem meinar þeim um að fá skeyti frá undirrituðum.

Augljóst er að sá tími rennur upp að við Þjóðveldisfólk rýnum betur ofan í hvernig eigi að telja daga og tíðir í þessu samhengi og setja upp áreiðanleg viðmið til að taka af allan vafa. Þá verður sú niðurstaða útgefin hér opinberlega og væntanlega lögfest. Þau fjögur ár sem nú eru liðin frá því okkar forna helgi var endurvakin, hafa vættir varðað okkur leið á milli skers og báru og móðurvættur þeirra veitt okkur milda leiðsögn.

Hingað til höfum við haldið Þjóðveldisdaginn, hvert og eitt á sinn hátt frekar en að halda opinberan viðburð. Hefur það verið oftlega rætt okkar í millum. Við höfum forðast að berast mikinn á og erum lítið fyrir að auglýsa óformlega fundi okkar eða þing.

Við tilkynnum ævinlega á Facebook síðunni þegar fundur eða þing er í vændum og áhugasamir vita af okkur.

Svo segir mér ilmurinn í kvöldhúminu og vorsöngur nýklakinna fuglsunga í morgunsólinni, að Þjóðveldisfólk mun óþvingað og fölskvalaust geta komið þúsundum saman að okkar helgasta stað á okkar helgasta degi og glaðst á góðri stund.

Þá munu margir sjá skýran mun á þeim degi sem valinn var af stjórnmálamönnum árið 1944 oog fæðingardegi Íslenzkrar þjóðar árið 930.

 

 

This entry was posted in Fréttir and tagged , , . Bookmark the permalink.

Comments are closed.