Júlíþing í héraði 2017

Héraðsþing var haldið föstudaginn 21. júlí 2017.  Á málefnaskrá voru tvenn atriði, áframhald utanríkissamskipta og þróun Silfurdals. Bæði þessi mál hafa verið á málefnaskrám Héraðsþinga síðan í október 2016 og er áframhaldandi þráður.

Enn er verið að þróa diplómatísk samskipti og nú við tvö erlend ríki en samskiptin eru ekki komin á það stig að rétt þyki að gefa opinbera skýrslu um stöðu mála heldur dugar sú umræða sem fram hefur farið á þingum sem er þekkt meðal borgara Þjóðveldis. Diplómatísk samskipti hafa verið falin einum borgara Þjóðveldis – sem nefndur verður síðar – og hefur hún annan borgara sér til aðstoðar í þeim efnum.

Varðandi Silfurdal, þá hefur hann verið staðfestur sem ríkisgjaldmiðill. Lögsögumanni hefur verið falið að þróa reikniverk og gengisviðmiðanir ásamt því að móta útlistanir og grundvöll fyrir meðhöndlun gjaldmiðils. Þessu máli hefur miðað jafnt og þétt frá því að umræða um það hófst og ríkir almenn sátt um stöðu mála.

Utan málefnaskrár voru umræður frjálsar og tóku á sig marga spennandi snúninga meðal þeirra borgara – og gesta – sem mættir voru á þing.

Talsverð umræða snérist um hvað er siðferði og hvað mótar siðferði ásamt siðferðisþróun og hvernig einstaklingur sér sjálfan sig í spegli eigin siðferðis og siðferðis samfélags. Meðal annars voru bornar saman frumforsendur siðferðismats út frá annars vegar Húmanisma og þá sérstaklega guðleysis (Atheism) annars vegar og trúarlegs grundvallar hins vegar og þá sérstaklega undan áhrifum Abrahamísku trúarbragðanna frekar en t.d. fjölgyðis trúarbragðanna.

Inn í framangreint fléttaðist mjög djúp umræða um hvað sé frumspeki (Metaphysics) og þá sérstaklega með tilliti til þess að frumspekilegar frumforsendur þróast oft út í kreddu (Dogma) til grundvallar vissum afstöðum sem fólk – og hópar – tileinka sér til veruleikans og líta þá á sem veruleikaforsendur án þess að gera sér ávallt grein fyrir að þær séu frumspekilegar.

Þá voru ræddir ýmsir fletir á þróun menntamála eins og þau hafa þróast innan Lýðveldisins og þá sérstaklega frá tvennum sjónvarhólum; Annars vegar hvernig þróun kynfræðslu (eða kynvitundarfræðslu) hefur verið þar undanfarna áratugi og hins vegar hver sé þróun viðurkenndrar eða opinberrar heimsmyndar (einnig innan Lýðveldisins) og hvernig mætti ræða eða endurmóta val á hverskonar sérfræðingar (kennarar) ættu að veljast til að hafa áhrif á sjálfsvitund og heimssýn nemenda í skólum.

Talvert var komið inn á rýni í hvernig þjóðfélagsverkfræði sé beitt- leynt og ljóst – innan Lýðveldisheimsins – á þessum vettvangi, þ.e. mótun heimsmyndar fjöldans og einstaklinga s.s. hvort einstaklingar hafi vald yfir sjálfsmótun sinni eða ekki.

Umræða um menntamál er smámsaman að hefjast innan Þjóðveldis en það er almennt litið svo á meðal borgara að Héraðsþing skuli vera eins sjálfstæð um þróun menntamála innan héraða eins og kostur er og halda Alþingi (og valdi ríkisins) í talsverðri fjarlægð frá hvernig héruðin móta fræðslu barna og unglinga og takmarka bæði skrifræðis- og sérfræðingavald yfir þessum málum. Af þessum sökum var því sleppt á sínum tíma að setja kafla um menntamál í Stjórnarskrá Þjóðveldis til að stuðla að frelsi héraða og sjálfsvaldi í þessum málum og vekja þörfina fyrir lifandi umræður um þessi mikilvægu málefni.

Í 6. grein mannréttindaviðauka Stjórnarskrár Þjóðveldis, sem samþykktur var 2016 og tók gildi í janúar 2017 segir; „6. Ríkið getur ekki svipt foreldri umráðarétti yfir barni sem ekki er orðið kynþroska.  Þá hefur ríkið ekki vald til að ákveða fyrir hönd barns hvers kyns uppeldi það skuli njóta – eða menntunar – telji foreldri annað.“

Ennfremur segir 3. grein Stjórnarskrár „3. Löggjafi þjóðríkisins er í höndum sjálfstæðra héraðsþinga og allsherjarþings er nefnist Alþingi og er hlutverk Alþingis að samræma heildarlöggjöf Þjóðveldis.“

Þá spunnust mjög lifandi samræður utandagskrár um mystísk gildi í þróun samfélags og þá sérstaklega með tilliti til Landvætta (og undirvætta) í Íslenzkri menningu og hvort það sé mikilvægt eða ekki fyrir einstakling (og þá hugsanlega innan hópstarfsemi) að þroska með sér mystíska sýn (sem sérhæfða frumspeki) við framþróun í þroska og sýn. Inn í þessa umræðu fléttaðist áhugaverð umræða um fjölskrúðugt fuglalíf Íslands og þá sérstaklega millitegunda (Inter species) vitundarsamskipti.

Eins og búast mátti við var drepið inn á Skjalavald, Skrifræði, og Sefjun (dávald) á flestum þeim utandagskrár umræðuefnum sem drepið var á. Langt mál væri að telja hér allt fram sem rætt var á skemmtilegu þingi en hér er drepið á þeim helstu málefnum sem rædd voru. Eins og sést þá eru borgarar Þjóðveldis meðvitaðir um þann skilning innan Þjóðveldis eldra að lög endurspegla ávallt frumspekilega sýn þess fólks sem býr innan ríkisins og þurfa öll sjónarmið að hafa leyfi til að komast að borðinu þegar stór mál sem smá eru rædd.

Loks má nefna að drepið var stuttlega á að í Þjóðveldi eldra voru dómar og dómsmál stærstu málefnin á Allsherjarþingi sem bendir til þess að í þann tíð hafi verið litið á dóma sem eðlilegt framhald lagaumræðu og að sú vitund – eða vitundarástand – borið saman við þróun dómsmála og dóma í lagavitund samtímafólks bæði innan Þjóðveldis og Lýðveldis hafi verið mun ríkari og meðvitaðri en er í samtíma okkar. Sérstaklega voru dregnar fram áhugaverðar umræður sem farið hafa fram um skyld málefni í Bandaríkjum Norður Ameríku undanfarinn áratug s.s. hvað er Lifandi Stjórnarskrá og Dómavald stofnana og embætta, svo og Sjálfstæði embætta gagnvart pólitískum stefnum og þingum.

 

 

This entry was posted in Fréttir and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.