Héraðs- og Allsherjarþing í október 2018

Eins og fram kemur í auglýsingu fyrir Októberþing, er aðeins eitt héraðsþing starfandi innan Þjóðveldis. Þegar Allsherjarþing var síðast haldið – í júní 2018 – var ákveðið meðal þingmanna að Júlíþing félli niður þar sem öll helstu mál voru rædd á Alþingi og engin pressandi málefni órædd fram að héraðsþingi í október.

Að þessu sinni var þing haldið 17. október 2018 og kom Alþingi saman á Héraðsþingi Reykjaness.

Þingið að þessu sinni fór í upprifjanir á lögum, ályktunum og umræðum sem hafa verið bókaðar (og birtar opinberlega á nyttland.is) síðustu fjögur árin. Margt var rifjað upp m.a. til að athuga hvort umræðuefni líðandi stundar hefðu áður verið tekin fyrir og hvort ástæða væri að fara betur ofaní önnur mál og einnig til að athuga hvort einhver ólokin verkefni væru fyrir höndum sem vinna þyrfti á komandi þingum.

Í umræðum kom fram að í kosningum hefur til þessa ætíð ríkt einhugur um málefni sem kosið hefur verið um. Þegar ekki hefur ríkt einhugur um einstök málefni hefur umræðum oft verið frestað til síðari þinga og umræður ætíð farið fram í virðingu og festu.

Sérstaklega var áminnt að Þjóðveldi er samsett úr sjálfstæðum Hérðsþingum sem sjálf hafa sagt sig í lög við Þjóðveldi og hafa þannig skuldbundið sig til að starfa eftir stjórnarskrá þess. Ríkið áskilur sér engin réttindi til valdboðunar yfir héruðum umfram þetta en áminnir um upprunalegan anda Þjóðveldis hins eldra að móta allsherjarreglu, virðingu og samræmi.

Eftirfarandi efni voru tekin fyrir sérstaklega:

Skatta-, mennta-, og heilsumálefni

Þar sem Þjóðveldi er fámennt eins og er þykir ekki brýnt að marka stefnu í mennta- og heilsumálefnum að sinni. Hins vegar þykir rétt að hefja umræður á næstu þingum um skattamálefni. Ríkið gæti þurft að greiða starfsfólki laun, greiða kostnað af ýmsum framkvæmdum og tilfallandi rekstrarkostnaði, auk hins mannlega þáttar þegar kemur að verðmætamati. Um þetta ríkti einhugur og var ákveðið að hraða þróun Silfurdals og klára útfærslu hans svo hægt sé að þróa efnahagsmál Þjóðveldis óháð utanríkisáhrifum.

Þá var bókað fyrir Alþingi að Stjórnarskrá Þjóðveldis sé skýr varðandi mörk milli héraðs og ríkis og áréttað að Héruð skuli eins sjálfstæð í sínum málaflokkum sem unnt er – meðan ekki brýtur allsherjarsamræmi héraða – og að sköttun Þjóðveldis fari fram þannig að héruð sjá sjálf um sínar skattareglur í samræmi við tilmæli stjórnarskrár og að allsherjarríkið þiggur sín skattframlög frá héruðum.

Loftslagsmál

Ríkið getur ekki ákveðið einhliða í svo víðfemu og teygjanlegu málefni, hvað sé vísindalega rétt niðurstaða, fyrir hönd borgara. Var þessi bókun vandlega yfirfarin.

Útlegð þeirra sem yfirgefa

Einróma var samþykkt á allsherjarþingi að borgarar sem hafa sóst eftir borgararéttindum Þjóðveldis og tekið þátt í starfsemi þess en síðar með sannanlegum hætti annaðhvort snúist gegn hagsmunum þess eða yfirgefið það, skuli dæmdir til útlegðar en hérað þeirra bóka dóminn og Allsherjarþing (fyrir hönd dómstóla) staðfesta hann. Ekki náðist einhugur um hversu löng slík útlegð skuli vera og samþykkt að fresta þeim hluta umræðunnar til næsta þings.

Að sinni er útlegð að lágmarki þrjú þing (tæpt ár) en að hámarki tólf þing (þrjú ár).

Áður hefur verið rætt – og bókað – á eldri þingum að borgarar geti ekki flutt atkvæði sitt að geðþótta á milli héraðsþinga og að þegar borgari þinglýsir sig í héraði skuli lögsögumaður héraðs leita upplýsinga annaðhvort hjá Upplýsingastofnun eða lögsögumanni þess héraðs sem borgari var síðast þingmaður hjá um drengskap og heiður borgara.

Þessi bókun var gerð á sínum tíma því stjórnarskrá skilgreinir að borgarar geta fært þingsetu sína á milli héraða (og þar með skattgreiðslur) til að beita héruð sín borgaralegum mótþróa og kom upp sú umræða á sínum tíma hvort setja skyldi einhverjar reglur um þetta efni til að tryggja festu og yfirvegun og fyrirbyggja misnotkun.

Stjórnarskrárbrot

Andi stjórnarskrár Þjóðveldis er sá að stjórnarskrárbrot sé Glæpur gegn þjóð og er Þjóðveldi eina ríkið í veraldarsögunni sem hefur sérstakleg skilgreint þetta hugtak og bundið í stjórnlög.

Lögð var fram sú tillaga að refsing við stjórnlagabroti embættismanna (og valdhafa) sé tólf ára fangelsi eða útlegð. Þá kom fram gagntillaga um þriggja ára útlegð. Einróma var samþykkt að rétt væri að dæma til útlegðar fyrir stjórnlagabrot, að frelsissvipting væri of harður dómur en ekki náðist sátt um tímalengd. Því stendur útlegð til þriggja ára að sinni en rætt verður á síðari þingum hvort tímalengdin skuli aukin.

Kannabis, eiturlyf og vímugjafar

Ríkið tekur ekki afstöðu til persónulegrar neyslu borgara og meðhöndlunar á náttúrulegum afurðum úr náttúrulegum hráefnum sem krefjast einfaldra og sögulegra vinnsluaðferða, en áskilur sér rétt til að setja reglur um efnavörur sem krefjast sérhæfðra og tæknilegra aðferða og geta haft eitrunar-afleiðingar. Var þessi bókun yfirfarin vandlega.

Gjaldmiðill

Eins og fram kom á Alþingi í júní 2018 hefur Þjóðveldi beðið þess á annað ár að skilgreina reiknireglu fyrir gengi Silfurdals – sem áður hefur verið samþykktur sem gjaldmiðill Þjóðveldis.

Lögð var fram tillaga að því hvernig slík reikniregla yrði unnin og var hún í aðalatriðum samþykkt og forstöðumanni Upplýsingastofnunar falið að útfæra reikniregluna nánar og útskýra á janúarþingi 2019.

Áður hefur verið rætt á þingum að Þjóðveldi meinar engum borgara – né félagi eða fyrirtæki – að nota aðra gjaldmiðla í sinni starfsemi en stofnanir þess skuli nota Silfurdal.

Þá var bókað að á meðan Þjóðveldi á engan silfurforða og að meðan engin stofnun Þjóðveldis geti sinnt vörslu gjaldmiðla og tryggt öryggi þeirra s.s. seðlabankar annarra ríkja og hagstofur sjá um, skuli tímabundið fundin önnur leið til að nota Silfurdal innan Þjóðveldis en að þá lausn megi einnig nota samhliða síðari tíma lausnum. Stungið var uppá notkun ávísanakerfis í tengslum við fyrrnefnda reiknireglu og var einróma samþykkt að kynna slíkt kerfi til sögunnar um leið og reikniregla Silfurdals verður kynnt.

Þjóðveldisfélag eða Þjóðveldi

Áður hefur verið rætt á þingum hvort stofna ætti almennt félag innan Lýðveldisins til að gæta hagsmuna þingmanna. Félagið yrði þá eins eins konar Þjóðveldisfélag innan Lýðveldis. Um þetta efni eru skiptar skoðanir, þó félag af þessu tagi gæti hentað við ýmsar aðstæður þá eru sterkar raddir meðal þingmanna sem vilja nota aðrar leiðir þar sem þess er kostur þar til sú staða kemur upp að Lýðveldið viðurkennir tilveru Þjóðveldis og eðlileg diplómatísk samskipti verða tekin upp á milli ríkjanna.

Í þessu ljósi skal áréttað að stjórnarskrá Þjóðveldis viðurkennir að Lýðveldið er til (sem er ekki hið sama og tilveruréttur) og tekur skýrt fram að ekki sé vilji þjóðveldismanna að bylta Lýðveldinu eða leggja það niður. Þá skal bent á að Þjóðveldið bannar ekki héruðum að segja sig úr lögum við allsherjarríkið, enda er hugsjón Þjóðveldis að valdið rísi frá málefnalegum samræðum meðal borgara og gagnkvæmri virðingu en ekki valdboðun frá ríkinu.

Hlutverk ríkis

Þá var sú spurning borin fram á þingi, hvert væri hlutverk ríkisins, réttindi þess og skyldur.

Yfirleitt ganga borgarar annarra ríkja útfrá því sem gefnu að ríki þeirra séu náttúruleg og eðlileg fyrirbæri en það er viðhorf þjóðveldisfólks að öll ríki séu í eðli sínu hugmynd sem birtist í veruleikanum í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem trúa á hugmyndina. Ennfremur að ríki þarf ekki viðurkenningu annarra ríkja á tilverurétti sínum eða veruleika. Síðast en ekki síst, þó bæla megi ríki og taka yfir landsvæði þeirra, þá geta öll ríki lifað af slíka vá af sömu ástæðu.

Sjaldan er rætt um hverjar séu ófrávíkjanlegar skyldur ríkja og yfirleitt hafa borgarar annarra ríkja víkjandi rétt bæði gagnvart ríkjum (og eru þá þegnar) og oft gagnvart félögum, stofnunum og fyrirtækjum sem starfa í skjóli þeirra.

Stjórnarskrá Þjóðveldis er skýr hvað þetta varðar, að ríki, fyrirtæki og félög hafa víkjandi rétt gagnvart borgurum sínum. Því hafa allir borgarar Þjóðveldis óhindraðan aðgang að ársfjórðungsþingum í sínu héraði og öllum upplýsingum um rekstur ríkisins. Í þeim undantekningatilfellum sem málsréttur eða atkvæði er takmarkað á þingi er það sérstaklega tilgreint í stjórnarskrá.

Í þessu ljósi var sérstaklega bókað að Þjóðveldi hafi takmörkuð réttindi til að dæma borgara sína til frelsissviptinga og veraldlegra refsinga umfram útlegaðardóma. Áminnt er að útlegðardómur merkir bókstaflega að viðkomandi einstaklingur nýtur engra réttinda innan ríkisins á meðan á útlegð stendur en stjórnarskrá leggur þó vissar kvaðir á ríkið í þessu tilliti.

Þá var bókað að þegar ríkið dæmir til útlegðar eða frelsissviptinga eða fjársekta þá má einungis beita einni af þessum tegundum refsinga í senn.

Þá var sérstaklega bókuð sú tillaga til Alþingis að ríkið hefur hvorki umboð né heimild til að skuldsetja borgara sína og var sú tillaga samþykkt einróma og eru því gild lög.

Að lokum var bókuð sú frumspekilega spurning sem lögð var fram fyrir þingið: Stendur ríkið vörð um borgara sína eða fyrirtæki, stofnanir og áhrifafólk (bjúrókrata og efnafólk)? Af spunnust skemmtilegar umræður á þingi en engin bókuð niðurstaða umfram það sem þegar kemur fram í Stjórnarskrá Þjóðveldis og þingfestum bókunum þess.

 

This entry was posted in Ályktanir og þing and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.