Allsherjarþing júní 2018

Í samræmi við ályktun héraðsþinga í október 2017 var ákveðið að auglýsa Allsherjarþing í júní 2018 og setja þinghelgi á fimmtudegi viku fyrir sumarsólstöður en sumarsólstöður 2018 falla á fimmtudag þann 21. júní og var þinghelgi sett þann 14. júní.

Á efnisskrá voru fyrst og fremst þrjú atriði. Að taka fyrir afsögn Ragnars Sigurðssonar Proppé sem lögsögumaður Þjóðveldis, stofnun Héraðsþings Reykjaness og snið opinberra tilkynninga og setningu þinga.

Fyrsta

Í aprílbyrjun birti lögsögumaður PDF skjal á Facebook grúppu  sem borgarar Þjóðveldis hafa notað sín á milli til umræðna og upplýsingaflæðis, þar sem hann tilkynnti afsögn sína sem Lögsögumaður og tilgreindi ástæður sínar. Alþingi tekur uppsögnina hér með gilda og þakkar Ragnari störf sín í þágu Þjóðveldis.

Umrædd Facebook grúppa heitir „Þjóðveldið – nyttland.is“ og var lengi vel opin almenningi en hefur verið lokuð síðan um áramót. Slóðin á grúppuna er facebook.com/groups/466283010224217.

Þó afsögnin hafi hvorki verið send til Alþingis né til Upplýsingastofnunar til birtingar á opinberum miðli Þjóðveldis var bókuð undanþága frá kröfu skjalavalds og verklagsreglna um opinbera birtingu. PDF skjalið er nú vistað á nyttland.is.

Annað

Upp kom flókin staða í janúar þegar haldin voru tvenn héraðsþing í Þjóðveldi en hvorugt var auglýst opinberlega. Annað þingið var tilkynnt í fyrrnefndri Facebook grúppu en hún var þá þegar lokuð almenningi og þar með gat tilkynningin vart talist opinber auglýsing samkvæmt verklagsreglum sem skjala- og ríkisvald. Hitt þingið var haldið óformlega og samkvæmt reglum Stjórnarskrár um rafrænar umræður og kosningar, snérist það þing einmitt um hvort stofna ætti Reykjanesþing eða ekki og var ekki ætlunin að halda það opinberlega.

Í apríl barst heldur engin beiðni til Upplýsingastofnunar um að auglýsa nein héraðsþing en aftur var haldið óformlegt (eða óauglýst) Reykjanesþing og var einróma kosið að þingið skildi formlega stofnað í júlí og að það myndi þá segja sig í lög við Þjóðveldi eins og stjórnarskrá krefst.

Þriðja

Þess hefur ætíð verið gætt frá stofnun Þjóðveldis 2013 að fundir og þing séu tilkynnt eða auglýst þannig að sjáist almenningi. Oft hefur verið rætt, bæði á fundum og héraðsþingum, að fyrrgreind Facebook grúppa sé ekki opinber miðill Þjóðveldis heldur einkaframtak þeirra borgara (bæði Þjóðveldis og Lýðveldis) sem taka þar þátt í umræðum.

Opinber miðill Þjóðveldis sé vefsíðan nyttland.is og þar skuli birta opinberar tilkynningar, ályktanir, reglugerðir, lög, skýrslur af þinghaldi og annað opinbert efni. Upplýsingastofnun ríkisins heldur utan um – samkvæmt stjórnarskrá – að birta opinbert efni og halda skjölun ríkisins til haga.

Eins og fram kemur í fyrsta og öðrum umræðulið Allsherjarþings að þessu sinni, þá hefur reynt á það hjá Þjóðveldi síðustu mánuði að skerpa þurfi á hvað telst lagalega opinber tilkynning eða auglýsing og hvað ekki. Telst framangreind umræða hafa skerpt á þessu atriði.

Ennfremur er áréttað gildi 2. greinar stjórnarskrár Þjóðveldis að ríkið er samsett úr sjálfstæðum héruðum sem halda sín eigin héraðsþing og sagt hafa sig í lög við Þjóðveldi. Það er andi stjórnarfars okkar að valdið rís neðan frá og upp en ekki ofan frá og niður, héruðin eru sjálfstæð um eigin málefni og venjur en hlutverk Allsherjarþings og stjórnarskrár er – eins og að fornu – að tryggja að allsherjarregla og virðing ríki á milli héraða.

Í október var kosið um að Allsherjarþing tæki fyrir fleiri málefni en gert var nú en sátt var um að þau atriði biðu síðari umfjöllunar. Enn er beðið reiknireglna um Silfurdal – sem áður var á verkefnaskrá Lögsögumann. Eins er beðið niðurstöðu úr þreifingum um utanríkismál sem hafin var vinna við haustið 2016. Ekki var rætt að sinni um þessi málefni. Lauk Allsherjarþingi í einróma sátt.

 

This entry was posted in Ályktanir og þing and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.