Héraðsþing í janúar 2017

Stjórnarskrá Þjóðveldis tilgreinir að héraðsþing séu haldin ársfjórðungslega og er mælt með að það sé gert í janúar, apríl, júlí og október ár hvert.

Þar sem Þjóðveldi er fámennt og fundir eru haldnir mjög oft hefur þessu verið fylgt óformlega og sumir fundir verið notaðir til að ræða formleg málefni Þjóðveldis og þá verið haldnir sem héraðsþing. Oft hafa hin formlegu málefni verið frekar notuð til að staðfesta umræður, ályktanir og kosningar, sem áður hafa farið fram rafrænt milli borgara.

Hefur almennt ríkt sátt um framangreint en ákveðið var á októberþingi 2016 að eftirleiðis væri tilmælum stjórnarskrár um val á þingmánuðum framfylgt.

Þar sem vald Þjóðveldis rís upp frá héruðum, ólíkt hefðbundnum ríkiskerfum þar sem valdið er skilgreint að ofanverðu, hafa héruðin því sem næst óskorað vald til að móta sín þingsköp og starfshætti. Því er stigið varlega til jarðar í mótun reglna og hefða og reynt að láta umræður og almenna sátt móta þinghald og ályktanir.

Stjórnarskrá Þjóðveldis tekur skýrt fram að ríkið er samsett úr þeim héruðum sem lýst hafa yfir fylgni við stjórnarskrá Þjóðveldis og þann ramma sem hún mótar.

Sem stendur er aðeins eitt virkt héraðsþing starfrækt á landinu svo auðvelt er að rita fréttir af þinghaldi og umræðum. Gert er ráð fyrir að hvert héraðsþing viðhaldi eigin vefsíðu og rafrænum umræðuvettvangi þegar þeim fjölgar. Ennfremur er gert ráð fyrir að Upplýsingastofnun skipuleggi þennan þátt í samstarfi við lögsögumann héraðs.

Á Janúarþingi 2017 var staðfestur Mannréttindaviðauki við 10du grein Stjórnarskrár sem samþykktur var á Allsherjarþingi í desember 2016.

Þá var opnaður farvegur til að ræða skattamál Þjóðveldis og umræður hafnar um gjaldmiðil ríkisins og stungið upp á stefnuviðmiðum til útfærslu og þróunar. Frestað var um sinn að ræða launa- og kjaramál – eða starfssamninga – við embættismenn (eða starfsmenn ríkisins) með stérstöku tilliti til að framangreind umræða er nýhafin.

Var einhugur um að þessi mál væru brýn og þá sérstaklega með tilliti til virðingar fyrir því málefni sem borgarar Þjóðveldis hafa hingað til litið á sem hugsjón þess og hefur mjög verið rædd á óformlegum fundum.

Þá var haldið áfram umræðum frá eldri þingum um utanríkismál og stefnumótun. Hafa verið samþykktar óformlegar tillögur í þessum efnum og Guðjóni E. Hreinberg og Þórdísi Hauksdóttur verið falið að halda utan um þessi mál að sinni en jafnframt að halda efnisatriðum óopinberum.

Umræður um frumspeki

Áberandi hefur verið í umræðum síðustu þinga, en utan þingskapa, að allir núverandi borgarar Þjóðveldis hafa áhuga á frumspeki (e. Metaphysics) og telja sig andlegar verur. Í þessu tilliti hefur verið rætt hvort ástæða sé að rýna í stjórnarskrá með þetta í huga og þá hvernig skuli viðhalda þeim anda hennar að hún sé hlutlaus hvað varðar trú (eða lífsskoðun) en verndi algjörlega trú (eða heimssýn eða lífsskoðun) hvers borgara.

Greinar 10 og  28 í Stjórnarskrá Þjóðveldis standa vörð um framangreint.

Það viðhorf hefur verið viðrað að sú orðræða sem haldin hefur verið við stofnun og vörðun fyrstu skrefa Endurreists Þjóðveldis, s.s. í bókinni Endurreist Þjóðveldi 2013 eftir Guðjón E. Hreinberg og fjölmargar myndræmur þar sem hann hefur komið inn á vætti lands og aðra frumspeki sem Íslensk þjóð hefur varðveitt um aldir sé nægileg í þessu samhengi.

Er þá átt við að frumspekin er utan við lagalega skjölun ríkisins – eða skjalavald – en þó engu að síður áberandi þáttur í þeim anda og umræðum sem það sprettur úr. Í sumum skilningi eru umræður um lög, og athugasemdir um þau áður en þau eru samþykkt, jafn mikilvæg og bókstafur þeirra og dómar sem af þeim spretta.

Sem dæmi má nefna að í Húmanisma endurreisnar tímabilsins fólst hugtakið Laga-Húmanistar (Legal Humanists) og var umræða þeirra stór þáttur í þróun þeirrar lagahefðar sem Secular þjóðríki notast við í okkar samtíma og horfði orðræða þeirra mjög til mótunar og notkunar Rómverskrar lagahefðar.

Á þeim tíma sem lagaþróun húmanismans fór fram hafði lagavald kirkjunnar hins vegar byggt á trúarlegri hefð um aldir og var orðræða mikilvæg til að móta nýja stefnu og þróa farveg hennar. Sem dæmi má benda á að við Kristnitöku árið 1000 voru haldin tvenn Allsherjarþing í Þjóðveldi eldra, annað á Þingvöllum og annað við Sog.

Snérist þá deilan í landinu um hvort lög allsherjarreglu skyldi endurspegla frumspeki heiðinna eða kristinna en lífsskoðun forfeðra vorra var sú að lög myndu ætíð endurspegla frumspeki þeirra sem þeim þyrfti að hlýta. Ljóst er að þessi umræða er aldagömul og ólíklegt að henni ljúki fyrir vorið.

Sem dæmi má nefna að sýnist sitt hverjum um hvort hugtakið Trú dugi eitt og sér til að hjúpa þrenn hugtök; Trú, Líffsskoðun og Heimssýn. Allir eru þó einhuga um að lagavald – eða skjalavald – þess ríkis sem við lifum við og tökum þátt í að móta, þarf að gera jafnt undir höfði þeim sem ekki trúa neinni frumspeki og þeim sem hana aðhyllast.

 

 

 

This entry was posted in Fréttir and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.