Umræða um Mannréttindaviðauka

Nýlega var lögð fram til umræðu innan Þjóðveldis, tillaga að Mannréttindaviðauka, í samræmi við það sem stjórnarskrá hefur kveðið á um. Ekki er búið að klára umræðu um þessa tillögu né gera ályktun eða kosningu.

Meðan tillagan er til umræðu liggur hún frammi á vef Þjóðveldis og er opin – staðfestum borgurum – til að tjá sig um. Sérstaklega eru borgarar hvattir til að tjá sig um þessa tillögu, hvort heldur í athugasemdum við þessa færslu eða á þeirri Facebook síðu sem til er; en gæta þess að athugasemdir rati til þess sem heldur utan um þetta efni.

Grein tíu a í Stjórnarskrá Þjóðveldis er svohljóðandi:

10. Til hinnar Íslensku þjóðar telst hver fullgildur ríkisborgari Þjóðveldis. a. Hver íbúi Þjóðveldis nýtur mannréttinda samkvæmt ákvæðum Viðauka II.

Bráðabirgðatexti Viðauka II í Stjórnarskrá segir:

II. Við grein 10.a. Um skilgreiningu mannréttinda og hugsanlega tilvísun eða virkjun á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Einnig þarf að ræða hvort Þjóðveldi ætti að starfrækja sérstaka lagaþjónustu sem borgarar geti nýtt sér til óháðrar lagaráðgjafar og þá hugsanlega sér að kostnaðarlausu. Þetta svið þarfnast víðtækrar og ítarlegrar  umræðu.

Tillagan sem lögð er fram er svohljóðandi:

Mannréttindaákvæði – tillögur

  1. Dómstóll getur ekki dæmt fólk af heimili sínu nema tryggt sé að það hafi heimili að flytja til, ef nauðsynlegt er getur ríkiskerfið útvegað bráðabirgðahúsnæði.
  2. Ríkinu er óheimilt að framselja borgara Þjóðveldis til annars ríkis.
  3. Öðrum ríkjum er óheimilt að svipta borgara Þjóðveldis eignum sínum, þar með töldum börnum og dýrum – þó borgarinn sé þar búsettur – án þess að dómstóll Þjóðveldis hafi af því afskipti, og er þá hitt ríkið skaðabótaskylt.
  4. Brjóti borgari Þjóðveldis lög annars ríkis – annars en Lýðveldisins – og sé þar búsettur, þá ná lög þess ríkis yfir borgarann en hann á rétt á að fullnusta dóms fari fram innan Þjóðveldis og kröfu um að Þjóðveldi sæki þann rétt fyrir hans hönd.
    – Ekkert ríki getur sótt til saka Borgara Þjóðveldis né handsamað nema fyrst sanna fyrir hæstarétti – Landsdómi – Þjóðveldis að eiga réttmæta kröfu á hann, takist að sanna slíka kröfu getur ríkið handsamað borgarann einungis sé hann staðsettur á lögsagnarumdæmi þess ríkis en í engu ef hann er staðsettur innan lögsögu Þjóðveldis og í engu má Þjóðveldi handsama borara Þjóðveldis fyrir hönd annars ríkis og framvísa þangað.
  5. Brjóti borgari Þjóðveldis lög hins „Íslenska Lýðveldis frá 1944“ ná lög þess yfir glæpinn því aðeins að þau brjóti ekki í bága við lög Þjóðveldis. Annars á hann rétt á vernd Þjóðveldis, og skaðabótum af hálfu Lýðveldisins.
  6. Ríkið getur ekki svipt foreldri umráðaréttar yfir barni sem ekki er orðið kynþroska. Þá hefur ríkið ekki vald til að ákveða fyrir hönd barns hvers kyns uppeldi það skuli njóta – eða menntunar – telji foreldri annað.
  7. Ríkið hefur víkjandi rétt gagnvart borgara í málum sem ríkið höfðar gegn borgara, og því hærri sönnunarbyrði. Þetta á einnig við þegar ríkið neitar borgara um þjónustu.
  8. Borgari Þjóðveldis á rétt á því að vera óskrásettur. Nær þetta til allrar skjölunar sem hann varðar frá fæðingarvottorði, kennitölu, og dánarvottorði, svo og til allrar skjölunar. Þess er vænst að Héraðsþing gæti þessa réttar – nú kann þetta að bitna á kosningum, þingsetum og sköttun, og sjúkrasögu, en þess er vænst að hugvit í hverju héraði fyrir sig finni viðeigandi lausn.
  9. Ríkið hefur ekki vald til að meina borgara að reisa sér húsnæði til búsetu að eigin geðþótta. Ennfremur á borgari rétt á því að marka sér land til íbúðar á landsvæðum sem eru skilgreind sem héraðs-, ríkis- eða bæjareign, án endurgjalds, og þá lagt fram ákveðið á þingi.
  10. Þjóðveldi ber skylda til að standa vörð um skoðana- og tjáningafrelsi án nokkurra skilyrða.
  11. Þjóðveldi starfræki lagaþjónustu sem borgarar geti nýtt sér til óháðrar lagaráðgjafar og þá sér að kostnaðarlausu. Þjónusta þessi sé ekki skyldug til að reka mál fyrir rétti.
    – Mælt er með því að lögfræðingar fái ekki málafærsluréttindi eftir laganám nema hafa starfað „Pro Bono“ hjá téðri þjónustu hálft ár að lágmarki.

Guðjón Hreinberg leggur tillöguna fram og skrásetur framvindu. Borgarar sem vilja skrá athugasemdir, vinsamlegast tryggi að þær rati til skrásetjara og fylgist með framvindu á þingum og kosningu.

 

 

 

This entry was posted in Fréttir and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.