Staðfestir borgarar og óstaðfestir

Við lentum í þeim vanda, við umræður um 48ndu grein Stjórnarskrár Þjóðveldis frá 2015, að við vissum ekki fyrir víst hverjir væru staðfestir borgarar og hverjir ekki, og þá hverjir hefðu máls- og atkvæðisrétt á þingum.

Það hefur verið stefna okkar síðan Þjóðveldið var endurreist á Þingvöllum við sumarsólstöður 2013, að forðast of mikla skráningu og skjölun – eða það sem kalla má skjalavald.

Við höldum ekki formlega skrásetningu yfir Þjóðveldisborgara og við erum ekki með neina stimpla – enn sem komið er. Þetta merkir ekki að við gætum ekki gert þessa hluti en eins og er teljum við ekki þörf á slíkri leikfimi meðan við erum fá og þekkjumst öll persónulega.

Hins vegar hefur fjölgað fólki sem opinberlega hefur dregið upp Hvítbláann á Netinu og er að fylgjast með umræðum í Facebook grúppu Þjóðveldis. Sumt þessa fólks býr á suðvestur horni landsins og á heimangengt á fundi hjá okkur en aðrir búa úti á landi, enn aðrir sem þetta hafa gert eru búsettir eða staðsettir erlendis.

Því var okkur vandi settur, hvar ættum við að draga mörkin, ekki síst því við þurftum að ganga til atkvæða og stjórnarskrá okkar er alveg skýr með hvernig kosið sé um breytingar á stjórnarskrá.

80% borgara þurfa að kjósa og 80% þeirra þurfa að samþykkja.

Nú leyfir stjórnarskrá að við kjósum rafrænt á héraðsþingum og auðvelt hefði verið að smala fjarborgurum saman í rafræna kosingu, en við vorum sammála um að nýta ekki rafræna ákvæðið fyrir stjórnarskrárbreytingar og skapa þá hefð að henni sé breytt án rafrænnar kosningar sé þess kostur.

Var þessi ákvörðun tekin til að draga ósýnileg mörk, eða skapa fordæmi fyrir hefð, að þó kjósa mætti almennt með rafrænum hætti að stjórnarskrárbreytingar væru dálítið veigameiri og vorum við einhuga um þá túlkun.

Það geta myndast aðstæður þar sem erfitt er að draga skýr mörk. Sumir sem eru fjarborgarar, hvort heldur innanlands eða utanlands, hafa verið virkir í samræðum innan þjóðveldis, eða sýnt með afgerandi hætti í sínu lífi hvar og hverjir þeir eru, eða hver afstaða þeirra sé.

Líta má svo á að fólk sem er í fjarlægð frá hita leiksins, en hefur sýnt afstöðu í verki og eru virkir í samskiptum við aðra borgara, að þó þeir hafi ekki getað mætt á fundi eða þing vegna aðstæðna, séu samt virkir. Hér er viss þrívídd sem hafa þarf í huga.

Þrívíddin er sú, þegar ég t.d. nefni nafn eins fjarborgara við annan, þá kannist hann við það sama. Hann kannast við borgarann, kannast við að hann sé virkur. Borgarinn var – eða er – þekktur meðal samfélags Þjóðveldisfólks. Hann getur því talist borgari.

Við erum fá í dag en okkur fjölgar jafnt og þétt og því getur reynst nauðsyn á að skilgreina grá svæði af þessum toga og mynda fordæmi sem virki þegar borgurum fjölgar, sérstaklega ef verið er að ræða viðkvæm mál á þingum og ekki síst ef vafasamt er hvort vafasömum aðilum hafi verið beint á vettvang í ókunnum tilgangi.

Þegar kom að kosningu 48ndu greinarinnar, ræddum við líka þann skilning að fólk sem hefur sýnt afstöðu og er virkt meðal okkar; og hefur mætt á fundi eða þing, það fólk sé klárlega komið yfir til Þjóðveldis og enginn vafi leiki á því. Ekki var rætt um tímalengd í þessu samhengi, en ljóst að koma mun að því.

Varðandi þennan síðari snúning, þá séu virkir fjarborgarar einnig innan Þjóðveldis og án vafa – því slíkir hafa sýnt að þeir væru virkir ef þeir gætu. Vegna aðstæðna sé sjálfsagt mál að þeir kjósi rafrænt.

Í þessum skilningi stungum við uppá að fólk sem er búsett í eða nærri héraði eða á auðvelt með að mæta á fundi eða þing en hefur ekki tekið neinn þátt í slíku, þó það sýni fánann á Netinu eða sé í Facebook grúppunni, hafi ekki gengið yfir til fulls og því ekki komið með atkvæðisrétt.

Með öðrum orðum;

Samþykkt hefur verið að borgari Þjóðveldis sé sá sem a) hefur lýst því yfir opinberlega að hann (eða hún) sé genginn yfir til Þjóðveldis og b) hafi sýnt það í verki s.s. með þáttöku á fundum þess og þingum. Ekki sé gerð krafa um sérstaka skrásetningu borgara í Þjóðveldi heldur dugi að aðrir borgarar kannist við að hann sé virkur (gildur).

Framangreint var rætt rafrænt og kosið um sem reglugerð með rafrænum hætti þann 10. maí 2016.

 

 

This entry was posted in Ályktanir og þing and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.