Íslenska Þjóðveldið frá 2013

Þjóðveldið frá 930 var stofnsett á fimmtudegi við sumarsólstöður árið 930. Þá var þinghelgi Allsherjarþings fyrst sett og var hlutverk þess að samræma löggjöf Íslenzka eylandsins á milli héraðsþinga þess, sem álitin voru sjálfstæð.

Endurreist Þjóðveldi var stofnað með sama hætti á fimmtudegi við sumarsólstöður árið 2013 og samþykkt að setja því bráðabirgða stjórnarskrá til tveggja ára.

Alþingi Þjóðveldis kom fyrst saman í júli og ágúst 2015 og samþykkti sömu stjórnarskrá með minniháttar breytingum. Það er sýn Þjóðeldisfólks að ríkiskerfi sé hugmynd sem verður sýnileg í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem hugmyndinni fylgja.

Samkvæmt stjórnarskrá Þjóðveldis er Hvítbláinn sem kenndur er við Einar Benediktsson skáld, þjóðfáni þess og gilda um notkun hans lög sem samþykkt voru í ágúst 2015. Eru það fyrstu lög Þjóðveldis sem kosin eru og sett, samkvæmt stjórnarskrá.

Þjóðveldi heldur ekki lista yfir gilda ríkisborgara, né heldur gefur það út kennitölur. Þá mætir Þjóðveldisfólk ekki á fjöldafundi í Lýðveldi, né heldur tekur það þátt í starfsemi stjórnmálaflokka Lýðveldis. Borgarar Þjóðveldis ræða saman augliti til auglitis og netið er aðeins notað þar sem það á við af ýtrustu nauðsyn.

Grunnþáttur í starfsemi Þjóðveldis, eða borgara þess, er því að koma saman á héraðsþingum og ræða þar þau mál er þeim þykir rétt og gilt að þar séu rædd og þá eftir viðmiðum stjórnarskrár.

Viðhorf Þjóðveldis er að góð bylting sé umbylting hugsunar og að ofbeldis byltingar séu úrelt fyrirbæri sem eyðileggi fyrir framþróun og heilbrigðum vexti. Sömuleiðis hafnar Þjóðveldisfólk almennum mótmælum, á þeirri forsendu að slíkt tilheyri valdalausum fylgjendum við úrelt flokkslýðræði og leiðtoga dávald, en kýs heldur lýðræðissamræðu á héraðsþingum og virkt lýðræði.

Við erum því ekki stjórnmálahreyfing og því hvorki til hægri né vinstri. Þannig getur hver sem er átt erindi í samræðuhópa okkar og tekið við hugmyndum eða framreytt hugmyndir, svo fremi að virðing sé í heiðri höfð. Rétt eins og með önnur ríkiskerfi, eða ríkishugmyndir, er það einungis umgjörð eða farvegur fyrir þá heill sem borgarar þess aðhyllast.

Markmið þessarar vefsíðu var í upphafi grasrótarsamræða á milli fólks sem hefur áhuga á virkum samræðum við annað fólk um þróun og vöxt samfélagsins. Henni hefur nú verið breytt í opinbera vefsíðu Þjóðveldis.

Ef þú vilt taka þátt, hafðu þá samband við þann sem benti þér á síðuna. Við auglýsum okkur ekki á vefnum að öðru leyti né heldur í fjölmiðlum. Við notum grúppu á Facebook til skoðanaskipta en hún er ekki opinber vettvangur Þjóðveldis heldur framtak einstaklinga innan þess.

Eins er með aðrar vefsíður (eða miðla) þar sem rætt er um Þjóðveldi að þær eru framtak þeirra sem þar ræða og ekki Þjóðveldis sem slíks. Einnig er rétt að taka fram að engin grasrótarsamtök eða stjórnmálahópur eru fulltrúi Þjóðveldis.

Að lokum; Borgarar í Þjóðveldi viðhalda grúppu á Facebook til skrafs og tilkynninga, sem finna má hér. Þar er um einkaframtak að ræða og er grúppan ekki hluti af opinberum vef ríkisins.

Comments are closed.